Þegar sólin hverfur af sjónarsviðinu
10. apríl 2013

Ef þú lest Space Scoop fréttirnar okkar reglulega hefur þú vafalaust séð fjölmargar glæsilegar myndir af himingeimnum. Þú skalt hins vegar veita þessum græna þokubletti sérstaka athygli því þetta verða örlög sólarinnar okkar í framtíðinni! (Hafðu samt ekki áhyggjur, þetta gerist ekki fyrr en eftir 5 milljarða ára!)

Kjarni stjörnu er ofsakennt umhverfi. Þyngdarkrafturinn þrýstir niður úr öllum áttum og myndar svo mikinn þrýsting og hitastig sem getur náð meira en 15 milljón gráðum! Við slíkar aðstæður eiga „kjarnahvörf“ sér stað. Það þýðir að atóm geta hvarfast saman og myndað önnur efni. Til dæmis mynda fjögur vetnisatóm eitt helíumatóm. Þegar stjarna af svipaðri stærð og sólin okkar hefur brennt allt eldsneyti sitt (vetnið) nálgast hún ævilok sín. Á lokastiginu bólgnar stjarnan út í margfalda upphafsstærð sína. Við köllum slíka stjörnu rauðan risa.

Á þessu stigi á stjarnan í stökustu vandræðum með að halda í efnið sitt og tekur að varpa frá sér ystu hlutunum út í geiminn. Gas og ryk sem stjarnan þeytir af sér myndar það sem við köllum hringþoku. Þessi grænglóandi skel er einmitt dæmi um slíkt fyrirbæri.

Fróðleg staðreynd

Kjarnahvörf hafa átt sér stað í sólinni í 4,6 milljarða ára og munu halda áfram í aðra 5 milljarða að minnsta kosti! Að lokum hverfur sólin af sjónarsviðinu og þá verður ekkert sólskin eftir.

This Space Scoop is based on a Press Release from ESO .
ESO
Mynd
Prentvæn útgáfa

Enn forvitin(n)? Lærðu meira...

Hvað er Space Scoop?

Lærðu meira um stjörnufræði

Veitir næstu kynslóð geimkönnuða innblástur

Vinir Space Scoop

Hafðu samband