Myndræn kúluþyrping
10. janúar 2013

Þegar þú lætur taka mynd af þér fyrir framan fallegan eða sögufrægan stað, gengur stundum fólk fyrir myndavélina og eyðileggur myndina. Stjörnufræðingar lentu líka í því þegar þeir tóku mynd af dvergvetrarbraut og kúluþyrping tróð sér inn á myndina.

Það er þó ekki hægt að segja að kúluþyrpingin hafi eyðilagt myndina því þessi fyrirbæri eru mjög falleg og áhugaverð. Kúluþyrping er safn gamalla stjarna sem hringsóla í einum hnappi umhverfis vetrarbraut. Í þeim eru mörg sérkennileg fyrirbæri, t.d. vampírustjörnur sem sjúga til sín efni frá nágranna sínum og smáar stjörnur sem snúast ótrúlega hratt: Á örfáum sekúndum snúast þær þúsund sinnum um sjálfar sig!

Þessi tiltekna kúluþyrping er á sveimi um Vetrarbrautina okkar. Þótt hún sé óralangt í burtu, er hún samt álíka stór á næturhimninum og fullt tungl. Ljósgeisli væri 120 ár að ferðast endanna á milli í þessari þyrpingu. Ekkert ferðast hraðar en ljósið svo þyrpingin er bersýnilega mjög stór. Hún er einmitt ein stærsta og bjartasta kúluþyrping sem við vitum um og sést með berum augum. Á suðurhveli jarðar sæirðu hana rétt hjá Litla Magellansskýinu — dvergvetrarbrautinni sem stjörnufræðingarnir voru að ljósmynda.

Stjörnufræðingarnir geta notað myndina til að rannsaka þyrpinguna í smáatriðum. Þannig geta stjörnufræðingar áttað sig hvernig þessi sérkennilegi hópur framandi stjarna hefur myndast.

Fróðleg staðreynd

Í kúluþyrpingunni er fjöldi fyrirbæra sem gefa frá sér röntgengeisla, sömu gerð ljóss og tannlæknirinn þinn notar til að skoða hvort tennurnar í þér séu skemmdar.

This Space Scoop is based on a Press Release from ESO .
ESO
Mynd
Prentvæn útgáfa

Enn forvitin(n)? Lærðu meira...

Hvað er Space Scoop?

Lærðu meira um stjörnufræði

Veitir næstu kynslóð geimkönnuða innblástur

Vinir Space Scoop

Hafðu samband