Stærsta barnastjarnan í Vetrarbrautinni okkar
10. júlí 2013
Með venjulegum sjónaukum sem nema sýnilegt ljós sjáum við aðeins örlítinn hluta af alheiminum. Til að fá betri mynd af öllu því sem alheimurinn hefur upp á að bjóða, þurfum við að skoða allar þær gerðir ljóss sem berast utan úr geimnum. Útvarpsbylgjur, röntgengeislun og innrautt ljós eru allt dæmi um ólíkar gerðir ljóss sem augu okkar nema ekki: Þetta ljós er ósýnilegt. Sama á við um hljóð: Eyru okkar greina ekki hljóð sem hefur of háa eða of lága tíðni. (Vissir þú til dæmis að hundar heyra hljóð sem við getum ekki greint?)
Ef við hefðum ekki sjónauka til að safna öllu þessu ljósi, sæjum við ekki nema lítinn hluta af þeim fyrirbærum sem eru úti í geimnum. Til dæmis var rauða skýið á þessari mynd ósýnilegt þar til sjónauki sem nemur innrautt ljós kom auga á það: Tilþrifamikið svæði fullt af gas- og rykslæðum. Eftir uppgötvunina ákváðu stjörnufræðingar að skyggnast dýpra inn í þetta þykka ský með ALMA sjónaukanum sem safnar útvarpsbylgjum. Stjörnufræðingum til mikillar undrunar fannst sannkölluð risastjarna vaxa inni í þessum rykuga móðurkviði!
„Móðurkviðurinn“ er ský sem er að falla saman og mynda stjörnu. Þar er efni sem dyggði til að búa til 500 stjörnur eins og sólina okkar! Þetta er því stærsta ský sinnar tegundar sem sést hefur í Vetrarbrautinni! Fóstrið eða stjarnan er enn að vaxa innan í því og svolgrar í sig efni. Búist er við að skýið geti af sér stjörnu sem verður allt að 100 sinnum massameiri en sólin okkar! Aðeins ein af hverjum 10.000 stjörnum í Vetrarbrautinni okkar verður svo stór!
Fróðleg staðreynd
Massamesta stjarnan sem fundist hefur er kölluð R136a1. Sú risastjarna er 265 sinnum massameiri en sólin okkar og næstum 10 milljón sinnum bjartari! Væri hún í miðju okkar sólkerfis skini hún álíka skært miðað við sólina eins og sólin skín miðað við fullt tungl.
This Space Scoop is based on a Press Release from
ESO
.
Mynd
Prentvæn útgáfa
Enn forvitin(n)? Lærðu meira...
Hvað er Space Scoop?
Lærðu meira um stjörnufræði
Veitir næstu kynslóð geimkönnuða innblástur
Vinir Space Scoop