Handan sjóndeildarhringsins
3. september 2013

Lengi taldi margt fólk að Jörðin væri flöt og ef maður sigldi of langt, félli maður út fyrir hana! Það hljómar skrítið að einhver skuli hafa trúað því en í dag erum við nógu heppin að eiga ljósmyndir af plánetunni okkar í öllu sínu veldi (sjáðu mynd tvö). Mikla tækni þurfti til að taka myndina, tækni sem forfeður okkar hefðu aðeins getað látið sig dreyma um. Vissir þú að þú þarft að ferðast um 20.000 km frá Jörðinni til að sjá hana alla?

Ímyndaðu þér nú hversu langt þú þyrftir að ferðast út í geiminn til að sjá allar stjörnurnar í Vetrarbrautinni okkar í einu (þær eru meira en 100 milljarðar talsins)! Við getum ekki tekið slíka mynd í dag en getum hins vegar tekið myndir af Vetrarbrautinni að hluta til. Þessa mynd tók Chandra röntgengeimsjónaukinn af miðju Vetrarbrautarinnar, hættulegasta hluta hennar, þar sem öllu ægir saman og risasvarthol leynist.

Allt sem hættir sér of nærri svartholinu fellur ofan í það og kemst aldrei burt aftur. Sjóndeild nefnist svæðið þar sem ekki verður aftur snúið. Ef eitthvað fer inn fyrir sjóndeildina kemst það aldrei út aftur, ekki einu sinni ljós! Bláa móðan á myndinni er gríðarlega heitt gas sem svífur hættulega nálægt sjóndeild risasvartholsins. Stjörnufræðingar hafa fundið út að svartholið mun aðeins gleypa hluta af gasinu en restin spýtist út áður en það kemst of nálægt.

Fróðleg staðreynd

Á mynd 2 sést Jörðin sem pláneta í geimnum. Geimfarar um borð í Apollo 8 tóku myndina árið 1968. Það var fyrsta mannaða tunglferðin. Geimfararnir komust á braut um tunglið og sneru svo aftur til Jarðar. Tunglfararnir voru fyrstu mennirnir í sögunni sem sáu Jörðina svona!

This Space Scoop is based on a Press Release from Chandra X-ray Observatory .
Chandra X-ray Observatory
Mynd
Prentvæn útgáfa

Enn forvitin(n)? Lærðu meira...

Hvað er Space Scoop?

Lærðu meira um stjörnufræði

Veitir næstu kynslóð geimkönnuða innblástur

Vinir Space Scoop

Hafðu samband