Blekklessupróf
13. febrúar 2013

En glæsileg mynd af stjörnuskara frá Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli! En bíðum við, það er eins og einhver hafi hellt einhverju niður á miðja myndina. Að minnsta kosti datt stjörnufræðingnum sem sá þennan blett fyrstur manna það í hug. Hann lýsti fyrirbærinu sem „blekdropa á björtum himni“.

Það sem við sjáum á myndinni er milljónir glóandi stjarna úr bjartasta hluta Vetrarbrautarinnar. Þetta svæði á himninum eru svo uppfullt af stjörnum að varla sést í dökkan blett á allri myndinni. Í miðjunni, við hlið mjög bjartrar, blárrar stjörnuþyrpingar, sést hins vegar skringilegt dökkt ský.

Þetta lítur út fyrir að vera hola í geimnum en í raun er dökki bletturinn lítið, einangrað rykský fyrir framan stjörnumergðina. Við köllum ský eins og þetta „Bokhnoðra“. Hnoðrinn er úr litlum rykögnum sem hindra að sólarljós berist úr bakgrunninum svo svæðið virðist tómt.

Bokhnoðrar eru leifar miklu stærri skýja sem kallast „sameindaský“. Eftirminnilegra nafn á þeim er „stjörnuhreiður“ vegna þess að í þessum stóru skýjum fæðast stjörnur! Úr þessu eina sameindaskýi gætu myndast í kringum 10 milljón stjörnur eins og sólin okkar! Stjörnurnar í björtu stjörnuþyrpingunni á miðri mynd urðu allar til úr sama sameindaskýinu en Bokhnoðrinn næst þyrpingunni er afgangsefnið úr því.

Fróðleg staðreynd

Sumir sálfræðingar láta sjúklinga sína taka „blekklessupróf“ til að kanna geðheilsu þeirra. Sálfræðingarnir vinna svo úr því sem sjúklingarnir telja sig sjá á myndunum. Hvað sérð þú í þessum dökka bletti? Við sjáum eðlu. Hvað heldur þú að það segi um okkur?

This Space Scoop is based on a Press Release from ESO .
ESO
Mynd
Prentvæn útgáfa

Enn forvitin(n)? Lærðu meira...

Hvað er Space Scoop?

Lærðu meira um stjörnufræði

Veitir næstu kynslóð geimkönnuða innblástur

Vinir Space Scoop

Hafðu samband