Allir um borð í Mars Express
7. júní 2013

Fyrir tíu árum þaut Mars Express af stað frá Jörðinni og hóf ferðalag sitt til Rauðu reikistjörnunnar. Síðan þá hefur geimfarið hringsólað um Mars og unnið baki brotnu við að varpa ljósi á leyndardóma þessa dularfulla hnattar. Undanfarinn áratug hefur Mars Express tekið ótal myndir af risavöxnum eldfjöllum, stærðarinnar gljúfrum og ísbreiðunum á pólum Mars.

Mars Express hefur sýnt okkur, svo ekki verður um villst, að fyrir milljörðum ára hafi fjórða reikistjarnan frá sólinni verið mun hlýrri og blautari en í dag. Með hjálp nákvæmra korta og ljósmynda af stórum, fornum árfarvegum og flóðasléttum, hefur geimfarið fundið sérstakar gerðir bergs sem myndast aðeins með vatni! Þökk sé Mars Express er ljóst að á Rauðu reikistjörnunni gæti eitt sinn hafa verið lífvænlegt umhverfi.

Geimfarið fann ekki aðeins merki um vatn á Mars í fyrndinni, heldur fann það vatnsís á reikistjörnunni í dag! Á litlu dýpi undir yfirborðinu á nokkur hundruð kílómetra svæði í kringum suðurpólinn leynist þunn skorpa úr frosnu vatni. Vatn hefur líka fundist í stórum, frosnum stöðuvötnum undir þurru, rykugu yfirborði reikistjörnunnar. Á pólsvæðunum hefur farið fundið nægan vatnsís til að þekja alla rekistjörnuna í 11 metra djúpu hafi, ef hann bráðnaði.

Mars Express jók líka vonir okkar um að á Mars gæti verið líf þegar það fann efni sem kallast „metan“ í lofthjúpi Mars. Á Jörðinni myndast metan aðeins með eldvirkni eða lífi. Er þá kannski líf á Mars í dag?

Ævintýrinu er enn ekki lokið. Mars Express á morg góð ár fyrir höndum! Í þessari viku sendi farið upplýsingar um mikið hamfaraflóð sem fyrir þremur milljörðum ára svarf árfarvegi og myndaði óseyri á svæði sem er 15 sinnum stærra en Ísland að flatarmáli!

Fróðleg staðreynd

Vissir þú að Mars hefur tvö tungl? Þau heita Fóbos og Deimos. Á meðan leiðangur Mars Express hefur staðið yfir hafa nokkrar glæsilegar myndir verið teknar af Fóbosi, eins og þú getur séð hér.

This Space Scoop is based on a Press Release from ESA .
ESA
Mynd
Prentvæn útgáfa

Enn forvitin(n)? Lærðu meira...

Hvað er Space Scoop?

Lærðu meira um stjörnufræði

Veitir næstu kynslóð geimkönnuða innblástur

Vinir Space Scoop

Hafðu samband